5 leiðir til þess að dvelja í núinu

Uppfærð

Listin að öðast hamingju á stundinni: Reyndu að hugsa um andartak í lífinu þegar þú varst sannarlega hamingjusamur og endurlifðu það andartak eins glögglega og þú getur. Ef til vill var það andaratakið þar sem þú varst á kvöldgöngu undir fullu tungli, eða upplifðir undurfagurt sólsetur, eða fæðingu barnsins þíns. Hvað sem það var eru líkur á að þú hafir verið fullkomlega gagntekinn í núinu án nokkurra hugsana um fortíð eða framtíð. Hamingjan er aðeins til staðar í núverandi andartaki.

,,Hér og nú” eru einkunnarorð sálar okkar, segir andlegi kennarinn Sri Chinmoy. Hér koma fimm leiðir til að tengjast hinu dýrmæta núi.

1. Vertu meðvitaður um andardráttinn

Andardrátturinn getur verið öflugt verkfæri til að tengja okkur við núið. Ef við getum verið meðvituð um öndunina, mun andardrátturinn sjálfur hressa okkur og gera okkur meðvituð um stað og stund. Sri Chinmoy kennir eftirfarandi æfingu fyrir meðvitaða öndun: anda inn á fimm skrefum og anda út á fimm skrefum, reglubundið. Eftir nokkrar mínútur muntu skynja nýja orku og tilfinningu fyrir núinu.

2. Taktu eftir umhverfinu

Samkvæmt andlega kennaranum Jiddhu Krishnamurti getum við uppgötvað sannleikann um lífið og okkur sjálf þegar við lærum listina að taka eftir. Það að taka eftir þýðir að veita einhverju fulla athygli án þess að dæma það. Reyndu að stilla augun og eyrun inn á hvaðeina sem gerist fyrir framan þig og ekki leyfa huganum að blanda sér í það. Þú munt komast að raun um að andartakið umlykur þig og kennir þér eitthvað markvert um töfra lífsins. ,,Allt kennir þér” sagði Krishnamurti.
,,Fölnað laufblað, fugl sem flýgur hjá, angan, tár, hinn ríki, hinn fátæki, fólk sem grætur, bros konu, hástemmdur maður.”

3. Hugleiddu

Það er hugurinn sem færir okkur sífellt frá núinu með því að senda okkur hugsanir um fortíð eða framtíð. Vissulega er fortíðin fánýt og framtíðin er ekki til. Aðeins núið er raunverulegt. Með hjálp hugleiðslu getum við róað hugann og gert hann hljóðan. Þá munum við komast að raun um að hugsanirnar koma ekki lengur þjótandi og trufla okkur í núinu. Ef við getum lært að hugleiða mun það hjálpa okkur að vera betur meðvituð um andartakið á þessari stundu og stað. Árangurinn verður sá að við höfum minni áhyggjur og verðum hamingjusamari og ánægðari.

4. Syngdu

Oft er söngur sjálfsprottin tjáning hamingju. Á mörgum trúarlegum og andlegum leiðum er söngur notaður sem miðill til að tengjast hærri eða dýpri veruleika innra með okkur, sem við getum kallað sál. Það er sagt að söngurinn komi frá hægra heilahveli. Þaðan koma einnig sköpunarkrafturinn, innsæið og hið sjálfsprottna, sem öll eru í góðu vinfengi við ,,hér og nú”. Þannig að ef þú vilt ekki vera fangi hugsana þinna skaltu syngja, brosa og vera hamingjusamur.

5. Stilltu þig inn á hið nýja.

Samkvæmt huganum er allt sem við sjáum gamalt. En ef við dveljum í hjartanu skynjum við að lífið er fullt af einhverju nýju og fersku. Börn dvelja alltaf í hjartanu. Þess vegna er allt nýtt fyrir þeim og þau eru hamingjusöm. Hin gamla leiðir til fortíðar, en hið nýja tengir okkur við töfra nútíðar. Eins og Sri Chinmoy segir: ,,Í hinu nýja er vonin og loforðið um að við munum verða fullkomin. Hið gamla getur aldrei falið í sér gjörvallan veruleikann. Það er hið eilíflega yfirhafna nýja sem mun flytja bopskapinn um fullkomnun.” Reyndu á meðvitaðan hátt að sjá og upplifa nýja hluti í daglegu lífi þínu. Taktu eftir fugli sem hefur tyllt sér á trjágrein fyrir utan gluggann, dáðstu að fíngerðum litbrigðum morgunhiminsins, heimsæktu staði sem þú hefur aldrei áður heimsótt, talaðu við ókunnuga manneskju í strætó. Hið nýja mun halda þér lifandi og hjálpa þér að upplifa ,,hér og nú”.