Raunverulegt leyndarmál hugleiðslunnar

Uppfærð

Við höfum haldið mörg námskeið á liðnum árum og komist að raun um að það er eitt sem aðskilur þá sem ná tökum á hugleiðslunni frá þeim sem ekki tekst það. Það er mjög einfalt – þeir sem ná tökum á hugleiðslunni eru þeir sem gera hana að mikilvægum þætti í lífinu.

Í byrjun felst það í því að taka frá stund daglega fyrir hugleiðsluna. Sú stund þarf ekki að vera löng í  byrjun – ef þú hugleiðir í fimm eða tíu mínútur daglega þá er það mjög góð byrjun. En til þess að hafa viljastyrk til þess að gera það,  ættirðu að spyrja sjálfan þig hvers vegna þú ert að þessu og hvað þú vilt fá út úr þessu. Ef ástæðurnar eru einlægar þá gera þær það mun auðveldara fyrir þig að hugleiða.

Myndband á ensku: Vinur okkar Pradhan Balter hefur haldið hugleiðslunámskeið í meira en 30 ár – hann lýsir á fallegan hátt mikilvægi þess að ástæðan fyrir hugleiðslunni sé einlæg.

Þegar þú síðan byrjar að hugleiða kemstu að raun um að hluti af verund þinni, í djúpum hjartans, þráir alltaf þessu reynslu af friði og gleði sem hugleiðslan veitir. Innra með sérhverju okkar er innri logi, innra ákall á Ljós, innra hungur eftir dýpri reynslu, innri þörf til þess að breytast stöðugt og komast yfir núverandi takmarkanir. Þessi innri löngun kallast andleg þrá. Því meira sem þú heldur tengslum við þessa andlegu þrá, þeim mun auðveldara er að hugleiða. Það er eins og andleg þrá hjartans sjái sjálf um hugleiðsluna.

Stundum leggur lífið allt að veði fyrir draum sem enginn nema þú sérð – ókunnur höf

Þessi innri þrá eftir einhverju dýpra og hærra er ekki sú sama og venjulegar langanir okkar í auð og öryggi,  viðurkenningu eða frægð. Þvert á móti er hún andstæða þeirra á margan hátt. Þegar mannlegar langanir eru uppfylltar veitir það þegar í stað ánægju, en síðan fylgir löngun í meira af sama tagi. Þessar langanir lofa okkur hamingju en veita okkur tómleika. En það eitt að skynja andlega þrá veitir uppfyllandi hamingju. Þú hefur e.t.v. ekki náð takmarkinu, og ekki enn sigrast á hugsunum þínum, en það eitt að vita að þú stefnir í rétta átt veitir þér gleði.

Annar stór munur á andlegri þrá og venjulegum mannlegum löngunum er sá að við reynum að láta mannlegar langanir hverfa með því að uppfylla þær. Við þekkjum hversu sárar mannlegar langanir geta verið; okkur dytti aldrei í hug að auka við þær. En við getum virkilega unnið að því að auka okkar andlegu þrá. Hvers vegna? Jú, því meira sem andlega þráin eykst, því meira kemur innri verundin fram og fer að ,,yfirtaka” hugleiðsluna. Í upphafi hugleiðslunnar þarftu að beita meðvitaðri áreynslu með ýmsum æfingum; en þegar andlega þráin er orðin nógu sterk, er eins og sálin stjórni ferðinni og sýni þér hvernig þú átt að hugleiða. Þá geturðu upplifað bestu og hæstu hugleiðslurnar.

Æfing til þess að auka andlega þrá

Hugleiðslukennarinn okkar, Sri Chinmoy, var einu sinni spurður hvernig maður ætti að auka andlegu þrána:

Ímyndaðu þér að inni í hjartanu sé lítill logi. Sjáðu hann fyrir þér. Hvað gerir þessi logi? Hann reynir að stíga upp á við. Hann er að reyna að lýsa upp óupplýsta hlutann af þér. Ef þú kannt að meta þennan loga, mun andleg þrá þín aukast.

..Í hvert sinn sem við kunnum að meta eitthvað, víkkum við það og aukum getu þess. Ef þú getur ímyndað þér að innra með þér brenni logi, og ef þú kannt að meta hann, þá mun sá logi stækka og geta hans mun einnig aukast. Að lokum mun hann verða nógu stór til að lýsa upp hjartað og loks alla verund þína. Þannig að til þess að auka þína andlegu þrá skaltu meta að verðleikum brennandi logann innra með þér. Þá muntu sjá að þitt innra ákall mun vaxa.

Kraftur hóphugleiðslunnar

Í hóphugleiðslu mætist andleg þrá allra í hópnum. Það er mælt með því að hugleiða einsamall daglega og einnig að hugleiða með hópi. Jafnvel þótt einstaklingshugleiðslan sé aðeins erfiðari í byrjun, er það hún sem gerir þér kleift að byggja upp sanna andlega þrá. Og í hóphugleiðslunni hjálpum við hvert öðru að ná hárri hugleiðslu sem veitir okkur sjálfsöryggi til að halda áfram.

Nánari upplýsingar um næstu námskeið